Jesús krossfestur og upprisinn

Lúkas 23:44- 24:12

Hermenn fóru með Jesú á stað sem heitir Gogata. Þar krossfestu þeir hann ásamt tveimur ræningjum.

Fólk hafði safnast saman á Golgata og það hrópaði:,,Ef þú ert sonur Guðs skaltu stíga niður af krossinum.”

Jesús horfði á þá og sagði: ,,Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.”

Annar ræningjanna tók að gera gys að honum og sagði:,,Ertu ekki Messías, sonur Guðs? Þá getur þú stigið niður af krossinum og síðan hjálpað okkur!”

En hinn ræninginn sagði:,,Ekki skaltu kvarta. Þú hefur fengið maklega refsingu fyrir það sem þú braust af þér. En þessi maður er saklaus. Hann hefur engum gert illt.”

Þá sagði hann við Jesú: ,,Jesús! Mundu eftir mér þegar þú kemur í ríki þitt.”

Jesús horfði á ræningjann og sagði: ,,Strax í dag verður þú með mér í Paradís.”

Um miðjan dag varð myrkur í öllu landinu og stóð það yfir í þrjár stundir. Og Jesús hrópaði hárri röddu:,,Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.”

Þegar hann hafði sagt þetta gaf hann upp andann.

Þá skalf jörðin svo björg klofnuðu og hús nötruðu.

Rómversku varðmennirnir urðu hræddir þegar þeir sáu þetta. Þeir báðu til Guðs og sögðu hver við annan:,,Hann var þá eftir allt saman sonur Guðs!”

Allir þeir sem safnast höfðu saman á Golgata urðu skelfingu lostnir og héldu í skyndi heim.

Jósef hét auðugur maður og var frá Arímaþeu. Hann var í æðsta ráði Gyðinga, en hafði gerst lærisveinn Jesú á laun.

Jósef fór á fund Pílatusar og bað um leyfi til að jarða Jesú. Að því fengnu hélt hann til Golgata, tók líkama Jesú niður af krossinum og lagði hann í gröf sem höggvin var í klett. Síðan var stórum steini velt fyrir grafaropið.

Þremur dögum eftir dauða Jesú fóru nokkrar konur snemma um morguninn að gröfinni. Þetta voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og nokkrar aðrar. Þegar þær komu að gröfinni sáu þær að steinium hafði verið velt frá grafaropinu. Þær litu inn í gröfina en hún var tóm.

Allt í einu stóðu hjá þeim tveir menn í skínandi klæðum. Konurnar urðu svo hræddar að þær þorðu ekki einu sinn að líta á þá.

En mennirnir sögðu við konurnar:,,Jesús er ekki hér. Hann lifir! Minnist orða hans, að hann  yrði krossfestur og myndi lifna aftur á þriðja degi.”

Þegar konurnar litu upp voru mennirnir farnir.

Nú máttu þær engan tíma missa. Þær ruku af stað í hendingskasti til borgarinnar. Þær urðu að segja lærisveinum frá því sem þær höfðu séð og heyrt!

To Top