Lamaður maður fær hjálp

Alltaf bættust fleiri og fleiri við þann hóp er talaði um Jesú. Menn komu frá  Jerúsalem og öllum þorpum Galíleu og Júdeu til Kapernaum. Þeir höfðu frétt að Jesús væri þar. Allir vildu hlusta á hann og það varð þröng á þingi.

Þá komu þar að fjórir menn sem báru mann á börum. Sá var lamaður og vildu vinir hans færa hann til Jesú en það var ómögulegt að nálgast hann. Fólk stóð svo þétt og þrengslin voru afar mikil.

Þá kom þeim ráð í hug. Þeir fóru upp á þakið! Þar tóku þeir nokkrar þakhellur upp svo þeir sæju hvað um væri að vera inni í húsinu. Nú skyldi lamaði vinurinn þeirra fá hjálp! Vinir hans létu börurnar með honum síga og komu þær niður einimitt þar sem Jesús stóð. Þá sá Jesús að hér voru á ferð menn sem trúðu svo sannarlega á hann.

Jesús vissi að allir menn þurfa á fyrirgefningu að halda fyrir það sem þeir hafa gert rangt.

Hann horfði á manninn og sagði: ,,Vertu ekki hræddur, vinur minn. Það sem þú hefur gert rangt er þér fyrirgefið.”
Fræðimennirnir, sem þekktu lögmálið betur en aðrir, voru ekki ánægðir með þessi orð Jesú. Hann hafði ekkert leyfi til að veita fyrirgefningu!

Jesús vissi hvað þeir voru að hugsa. Hann spurði þá hvers vegna þeir létu svona ljótar hugsanir ná tökum á sér.
Síðan sagði hann:,,Svo þið sjáið að ég hef vald- og nú sneri hann sér að lamaða manninum – ,,þá segi ég: Stattu upp, taktu börurnar og farðu heim.”

Þá spratt maðurinn upp! Hann gat gengið! Hann fór heim og þakkaði Guði fyrir.

To Top