Sköpunin

http://barnatru.is/wp-content/uploads/2009/11/skopunin.mp3

Djúp kyrrð grúfði yfir öllum heiminum.
Ekkert var til.
Í auðninni blés vindur,
vindur Guðs.
Og Guð byrjaði að skapa:

Guð sagði: ,,Verði ljós!”
Og það varð ljós.
Guð sá að það var gott.
Hann kallaði ljósið dag
og myrkrið nótt.

Guð sagði: ,,Verði himinn!”
Og himinn hvelfdist yfir,
blár himinn eins og stórt þak yfir jörðinni.

Guð sagði: ,,Verði jörð! Jörð með vötnum
og höfum umkringis.”
Og það varð svo.

Nú hafði Guð skapað himin og jörð, vötn og höf.
En ekki var öllu lokið.

Guð sagði: ,,Verði gras, blóm og tré!”
Og jörðin byrjaði að grænka.
Grasstrá skutu upp kolli,
blóm opnuðust hægt og feimnislega
og tré breiddu greinar sínar út mót himni.

Guð sá grasið,
blómin og trén.
Og Guð sá að það var gott.

Guð sagði: ,,Verði sól, tungl og stjörnur!”
Og Guð lét sól lýsa degi
og tungl um nætur
ásamt stjörnum.

Nú hafði Guð skapað himin og jörð, vötn og höf.
Líka gras, blóm og tré.
Búinn að skapa sól og tungl og stjörnur.
Enn var ekki öllu lokið.

Guð sagði: ,,Syndi fiskar í vatninu!
Fljúgi fuglar yfir jörðinni.”
Og Guð skapaði stóru sjávardýrin,
alla litlu fiskana
og alls konar fugla.
Fiskarnir syntu í vötnunum
og fuglarnir flugu yfir jörðinni.
Samt var öllu ekki lokið.

Guð sagði: ,,Komi fénaður og skriðdýr,
og villt dýr!”
Og fénaðurinn kom og skriðdýrin fylgdu á eftir
og öll villtu dýrin.

Nú hafði Guð skapað himin og jörð, vötn og höf.
Líka gras, blóm og tré.
Búinn að skapa sól og tungl og stjörnur,
fiska, fugla og fjölda annarra dýra.

Þá skapaði Guð manninn,
karl og konu.
Guð sagði: ,,Verði menn!
Menn sem eru líkir mér!”
Og Guð skapaði karl og konu
og blessaði þau.
Guð gaf þeim huga og hönd
því þau áttu að sjá um sköpunarverkið.

Guð leit yfir sköpunarverkið
og sá að allt sem hann hafði skapað
var gott.
Allt hafði sinn sess
og allt féll vel hvað að öðru.

Þá rann upp mjög sérstakur dagur.
Á þeim degi skapaði Guð ekkert,
hann átti að vera helgidagur.
Þá hvíldi Guð sig.

To Top